Sjúkdómsgreining

Greining á Dravet heilkenni getur verið flókin. Íhuga skal Dravet heilkenni hjá börnum sem fá flog í kringum 5-8 mánaða aldur í tengslum við bólusetningar, hita, veikindi eða böðun, sér í lagi ef um er að ræða endurtekin og langvarandi flog, hemiclonic flog eða flogafár.  

Þau sjúkdómseinkenni sem m.a. er litið til við greiningu á Dravet heilkenni eru1:

 • - Tíð flog á fyrsta aldursári, gjarnan í tengslum við hita.
 • - Fyrstu flogköst  gjarnan staðbundin eða altæk krampaflog.
 • - Stuttu síðar koma fram kippaflog og aðrar tegundir floga með eða án hita.
 • - Ekki tekst að halda flogum niðri með flogalyfjum.
 • - Löng flog ≥ 10 mínútur og flogafár.
 • - Eðlilegur þroski fram að fyrsta flogakasti.
 • - Staðfest þroskafrávik á öðru aldursári.
 • - Eðlilegt heilalínurit í upphafi.
 • - Eðlileg efnaskipti.
 • - Hegðunarvandamál.
 • - Ataxia og crouch gait.
 • - Flog sem eiga sér stað með hita eftir fimm ára aldur.

 

Sjúkdómsgreining og genapróf

Ef grunur vaknar um Dravet heilkenni er gjarnan gripið til genaprófa svo hægt sé að staðfesta sjúkdómsgreiningu og veita viðeigandi meðferð. Ekki er þó hægt að byggja sjúkdómsgreiningu ungra barna eingöngu á niðurstöðu genaprófa þar sem sjúkdómseinkenni eru smám saman að koma fram á fyrsta til fjórða aldursári. Endaleg greining á Dravet heilkenni liggur því sjaldnast fyrir fyrr en eftir tveggja ára aldur þegar sjúkdómseinkenni og áhrif á þroska eru komin fram2,3. 

Í tilfelli barna undir eins árs er framvinda sjúkdómsins og birtingarform oft óljós og erfitt getur reynst að aðgreina heilkennið frá öðrum sjúkdómum af völdum SCN1A stökkbreytinga. Hattori og fleirri þróuðu því eftirfarandi próf til að auðvelda greiningu á Dravet heilkenni fyrir börn yngri en 1 árs. 

 
 
Hattori próf fyrir börn yngri en 1 árs4
Klínísk einkenni Stig
Flog byrja fyrir 7 mánaða aldur 2
Heildarfjöldi floga > 5 3
Staðbundin flog (e. hemiconvulsions) 3
Ráðvilluflog (e. partial (focal) seizures) 1
Kippaflog (e. myoclonic seizures) 1
Löng flog (e. prolonged seizures) 3
Flog í tengslum við böðun 2

Ef samtala ofangreindra þátta er > 6 eru töluverðar líkur á að um Dravet heilkenni sé að ræða og mælt með að gert sé genapróf því til staðfestingar.

 

Vandkvæði við túlkun genaprófa:

Þó genapróf geti staðfest orsök veikinda þannig að hægt sé að veita strax viðeigandi meðferð þá er í dag ekki til staðar nægileg þekking né tækni til að greina sjúkdómsáhrif og alvarleika einstakra stökkbreytinga. Önnur gen virðast einnig hafa áhrif á birtingarform Dravet heilkennis þannig að sjúkdómseinkenni geta verið afar ólík milli einstaklinga með sömu stökkbreytingu.

Einnig geta stökkbreytingar á öðrum genum t.d. SCN2A, SCN1B, GABRG2, GABRA1, PCDH19 og STXBP1  valdið Dravet heilkenni, auk þess sem í sumum tilfellum finnst engin genatísk skýring. Þar ef leiðandi er ekki hægt að styðjast eingöngu við niðurstöður genaprófa við greiningu á Dravet heilkenni heldur þarf fyrst og fremst að byggja sjúkdómsgreiningu á sjúkdómseinkennum og framvindu sjúkdómsins.

Heimildir:

1 Ceulemans, B, og Cras, P. (2004). “Severe Myoclonic Epilepsy in Infancy”
Relevance for the clinician of severe epilepsy starting in infancy.
Acta Neurol Belg. 2004 Sep;104(3):95-9.

2 Dravet, Charlotte og Guerrini, Renzo. (2011). Dravet Syndrome. Montrouge: Johm Libbey Eurotext.

3 Shinichi Hirose, Ingrid E. Scheffer, Carla Marini, Peter De Jonghe, Eva Andermann, Alica M. Goldman, Marcelo Kauffman, Nigel C. K. Tan, Daniel H. Lowenstein, Sanjay M. Sisodiya, Ruth Ottman og Samuel F. Berkovic fyrir the Genetics Commission of the International League Against Epilepsy. (2013). SCN1A testing for epilepsy: Application in clinical practice. Epilepsia, 54(5):946–952. doi: 10.1111/epi.12168

Junri Hattori, Mamoru Ouchida, Junko Ono, Susumu Miyake, Satoshi Maniwa, Nobuyoshi Mimaki, Yoko Ohtsuka og Iori Ohmori. (2008). A screening test for the prediction of Dravet syndrome before one year of age. Epilepsia, 49(4):626–633. doi: 10.1111/j.1528-1167.2007.01475.x