Dravet rófið

Dravet heilkenni tilheyrir svokölluðu dravet rófi, en með því er átt við hóp sjúkdóma sem valda flogaveiki og eiga það sameiginlegt að hafa svipaða genatíska orsök. Í flestum tilvika er um að ræða stökkbreytingar á geninu SCN1A sem valda truflunum á starfsemi natríum jónaganganna NaV1.1 í heila.

 

Dravet rófið gengur einnig undir nöfnunum:

  • SCN1A flogaveiki (e. SCN1A related epilepsies)
  • SCN1A flogaveikirófi (e. SCN1A spectrum seizure disorders)
  • Jónagangnaflogaveiki (e. Ion channel epilepsy)
  • Natríumjónagangna flogaveiki (e. Sodium Ion Channelopathy)

 

Eftirtaldir sjúkdómar tilheyra Dravet rófinu, en alvarleiki þeirra eykst eftir því sem neðar dregur í röðinni:

  • Hitakrampar (e. Familial Febrile Seizures (FS/FS+))
  • Genetic Epilepsy with Febrile Seizures Plus (GEFS/GEFS+)
  • Intractable Childhood Epilepsy with Generalized Tonic Clonic Seizures (ICE-GTC)
  • Severe Infantile Multifocal Epilepsy (SIMFE)
  • Severe Myoclonic Epilepsy Borderline (SMEB)
  • Dravet Syndrome (DS) / Severe Myoclonic Epilepsy of Infancy (SMEI)

 

Mynd 1. Tengsl genastökkbreytinga og sjúkdóma á Dravet rófinu.

http://www.ice-epilepsy.org/wp-content/uploads/Understanding-Epilepsy-map1.png

Myndina má finna hér:

/FS/DeliverFile.aspx?ID=f931a219-0023-426b-bff6-ff24b36b5bdb

 

Sjúkdómarnir eiga það sameiginlegt að fyrsta flogkast á sér venjulegast stað fyrir eins árs aldur í tengslum við hita eða veikindi. Í FS sem er vægasti sjúkdómurinn á rófinu er um að ræða hitakrampa sem eldast af börnunum og hafa ekki áhrif á þroska þeirra. Hitakrampar flokkast ekki sem flogaveiki og eru sjaldan meðhöndlaðir með lyfjum.

Í GEFS+ er hins vegar um að ræða hitakrampa sem breytast með tímanum í krampaflog án hita, en einnig geta komið fram kippa-, fall-, og störuflog. Flogaköstunum er venjulegast haldið niðri með lyfjum og hverfa þau með aldrinum. Einstaklingar með GEFS+ þroskast að jafnaði eðlilega þó þroskafrávik séu einnig þekkt. 

Sjúkdómar á alvarlegri endandum s.s. ICE-GTC, SIMFE, SMEB og Dravet heilkennið (SMEI) byrja oft á tíðum með altækum eða staðbundnum hitakrömpum sem eiga það sameiginlegt að vera langir og þróast mögulega í flogafár (flogaköst sem standa yfir í samfellt 30 mínútur eða lengur). Fyrstu köstin koma gjarnan fram við veikindi, bólusetningar og smávægilegar breytingar á líkamshita t.d. við heitt bað eða líkamlega áreynslu. Seinna koma svo fram aðrar tegundir floga með eða án hita, s.s. kippaflog og störuflog, auk annarra sjúkdómseinkenna og  frávika í vitsmuna- og hreyfiþroska.

 

Mynd 2.  Sjúkdómseinkenni sjúkdóma á Dravet rófinu.

Myndina má finna hér:

/FS/DeliverFile.aspx?ID=0b82c5bf-a7ef-4e35-af49-7ab526816506

 

Hvað veldur sjúkdómum á Dravet rófinu?

Um 70-80% barna með Dravet heilkenni eru með stökkbreytingar á geninu SCN1A .  Er þá í 90% tilfella  um að ræða nýjar (de novo) stökkbreytingar sem erfast ekki frá foreldrum. Í 20-30% tilvika er önnur skýring á sjúkdómnum s.s.. stökkbreytingar á öðrum genum t.d.SCN2A, SCN1B, GABRG2, GABRA1, PCDH19 og STXBP1, tíglun (e. mosaism) eða þá að engin orsök finnst.

 

Erfðir

Við greiningu barns með Dravet heilkenni er foreldrum oftast boðið upp á erfðaráðgjöf til að meta líkur á endurtekningu. Sé um að ræða nýja (e. de novo) stökkbreytingu sem finnst ekki hjá foreldrum eru innan við 1% á endurtekningu. Sé einstakingur hins vegar með stökkbreytingu á geninu SCN1A eru 50% líkur á að börn hans erfi stökkbreytinguna.

Um 7% foreldra barna með Dravet heilkenni eru með tíglun (e. mosaism) sem útskýrir hvers fleirri en einn fjölskyldumeðlimur eru með Dravet heilkenni eða aðra sjúkdóma á Dravet rófinu. Birtingarform geta þá verið mismunandi milli skyldmenna eða allt frá því að einstaklingar séu einkennalausir upp í að þeir þjáist af Dravet heilkenni. Í þessum tilfellum getur verið erfitt að meta líkur á endurtekningu.

Sé um að ræða þekkta stökkbreytingu er hér á landi hægt að kanna með fylgjusýnatöku hvort hún sé til staðar hjá fóstri strax á 12 viku meðgöngu kjósi foreldrar svo. Einnig er hægt að taka naflastrengsblóð við fæðingu til að skoða hvort barn beri umrædda stökkbreytingu. Í báðum tilvikum tekur nokkrar vikur að fá niðurstöðu.

 

Heimildir:

Carla Marini, Ingrid E. Scheffer, Rima Nabbout, Arvid Suls, Peter De Jonghe, Federico Zara og Renzo Guerrini. (2011). The genetics of Dravet syndrome. Epilepsia, 52 (Suppl. 2 ):24–29. doi: 10.1111/j.1528-1167.2011.02997.x

http://www.greining.is/fraedsluefni/dravet-heilkenni/

De Jonghe, P. (2011). Molecular genetics of Dravet syndrome. Developmental Medicine and child neurology, apr ;53 Suppl 2:7-10. doi: 10.1111/j.1469-8749.2011.03965.x

Dravet Syndrome: Improve the Outcome: a Guide for Physicians. (2011). Dravet.org.

Incorpora, G. (2009). Review Dravet Syndrome. Italian Journal of Pediatrics, 35:27 doi:10.1186/1824-7288-35-27

Michelle Warren Welborn. (2008). Dravet Syndrome Spectrum. Ice Epilepsy Allicance.

Shinichi Hirose, Ingrid E. Scheffer, Carla Marini, Peter De Jonghe, Eva Andermann, Alica M. Goldman, Marcelo Kauffman, Nigel C. K. Tan, Daniel H. Lowenstein, Sanjay M. Sisodiya, Ruth Ottman og Samuel F. Berkovic. (2013). SCN1A testing for epilepsy: Application in clinical practice. Epilepsia, 54 (5): 946–952, 2013, doi: 10.1111/epi.12168.